Stafræn umbreyting

Stafræn umbreyting

Á undanförnum árum hafa orðið gríðarlegar breytingar á tækni og þá sérstaklega upplýsingatækni.  Með þessari framþróun hafa orðið verulegar breytingar á því hvað hægt er að gera og tilkostnaðinum sem af því hlýst.  Þetta þýðir að fyrirtæki þurfa nú að endurskoða frá grunni hvernig þau nýta upplýsingatækni. Við sjáum þörf fyrir verulegar breytingar á verkferlum og störfum en með þeim breytingum þarf færri einstaklinga til að sinna stoðþjónustu.  Sé allt rétt gert geta rekstraraðilar því hagrætt og sótt sér annan ávinning.  Það er því eftir miklu að fara og í raun lífsnauðsynlegt fyrir rekstraraðila að fylgjast vel með og hreyfa sig hratt en þó ekki of hratt.

En hvernig skilgreinum við stafræna umbreytingu?

Stafræn umbreyting (e. digital transformation) er leið til framþróunar með því að taka upp stafrænar lausnir með það að markmiði að draga úr kostnaði en á sama tíma að bæta þjónustustig og auka upplýsingagjöf til hagaðila. Með nýjum tæknilegum lausnum má skipta út jafnt stafrænum sem og handvirkum ferlum fyrir mun sjálfvirkari stafræna ferla. Að ná stafrænum viðskiptaþroska er eitthvað sem rekstraraðilar þurfa að huga að enda hagkvæmara og umhverfisvænna verklag en það sem í notkun er í dag.

Það má því segja að stafræn umbreyting eigi sér stað þegar fyrirtæki byrja að nýta sér stafræna tækni og gögn til að auka ávinning sinn, breyta eða skipta út ferlum þannig að stafræn tækni sé nýtt og ýta þannig undir stafræn viðskipti.